Jafnréttisáætlun Heimilistækja - ht.is | HT.is

Jafnréttisáætlun Heimilistækja

Jafnréttisáætlun Heimilistæki miðar að því að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna hjá fyrirtækinu. Jafnréttisáætlun er unnin í samræmi við lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Tilgangur jafnréttisáætlunarinnar er að tryggja fyllsta jafnrétti kynjanna og nær hún til allra starfsmanna.

Launajafnrétti

Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir fólk óháð kyni. Skulu þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun.

Image

Laus störf, starfsþróun, endurmenntun og símenntun

Það er stefna Heimilistæki að öll störf sem laus eru til umsóknar skulu standa opið jafnt konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá, sbr. þó 2. mgr. 16. gr. um sértækar aðgerðir til að jafna stöðu þess kyns sem hallar á.

Heimilistæki mun bregðast við og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að konur, karlar og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá njóti sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings fyrir önnur störf.

Image

Samræma fjölskyldu- og atvinnulíf

Heimilistæki mun gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera starfsfólki kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu, óháð kyni. Ráðstafanir skulu m.a. miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma, þar sem því verður viðkomið,  þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsfólks og þarfa fyrirtækis, þ.m.t. að starfsfólki sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna brýnna fjölskylduaðstæðna.

Image

Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni

Heimilistæki mun gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, hvort sem er af hendi samstarfsfólks, yfirmanna eða viðskiptavina.

Image

Ábyrgð og eftirfylgni

Ábyrgðarmaður jafnréttisáætlunar ber ábyrgð á eftirfylgni áætlunarinnar, en árlega er farið yfir stöðu markmiða og verkefna á rýnifundi stjórnenda í tengslum við jafnlaunavottun.

Jafnréttisáætlun þessi tekur gildi við samþykkt og gildir til loka árs 2025. Ef hún tekur breytingum á gildistímanum verður upplýst um það.

Jafnréttisáætlun samþykkt,

25.11.2022